Um jólin
Höfum eitt á hreinu. Jól eru ekki kristin hátíð. Orðið „jól“ hefur verið í málinu mun lengur en kristnin í þjóðinni, það er svo fornt að uppruni þess er í raun hulin ráðgáta. Heiðnir menn héldu hátíð í tilefni af vetrarsólstöðum og kölluðu hana „jól“. Höfum annað á hreinu. Við vitum ekki hvenær ársins Jesús fæddist. Líkurnar á að það hafi verið 24. desember eru einn á móti 365. Hafi hann fæðst þennan dag er það hrein tilviljun. Auk þess fæddist Jesús löngu áður en tímatal okkar var búið til og afar óvísindalegt er að ætla að reikna einstakar dagsetningar aftur í tímann langt aftur fyrir upphaf þess. Höfum loks á hreinu að Jesús, sá er fæddur var af Maríu þeirri sem kölluð er „Mey“ og píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, var til. Til að trúa því að persónan Jesús Maríuson sé uppspuni frá rótum þarf mun meiri trúgirni en til þess að viðurkenna að hann hafi verið til, heimildirnar eru bara of sannfærandi. Hvað einstök æviatriði hans, ætterni í karllegg og sagnfræðilegan áreiðanleika hinna ýmsu frásagna Nýja testamentisins varðar, þá verða menn hins vegar að ákveða hver fyrir sig að trúa postullegu trúarjátningunni eða ekki – hún verður hvorki sönnuð né afsönnuð með þeim aðferðum sem við beitum hinn mælanlega raunveruleika. Í trúarsannfæringu felst nefnilega meðal annars fullvissa um að til sé sannleikur sem er dýpri og æðra eðlis en sannleikshugtak efnisheimsins. Þannig getur fjöldi manns til dæmis vitnað um áhrif bænarinnar á líf sitt þótt þau séu auðvitað ekki mælanleg með neinum þekktum aðferðum. En þegar upp er staðið þá er ekkert skrýtið að kristið fólk skuli velja jólin til að fagna fæðingu frelsarans. Það er einfaldlega allt of gráupplagt, öll táknfræðin æpir beinlínis á það. Myrkur (fáfræðinnar, dauðans, mannvonskunnar, óttans og alls sem myrkrið getur táknað) tekur að hopa fyrir birtu (sannleikans, lífsins, kærleikans, friðarins og alls þess sem Jesús stendur fyrir). Að þessu sögðu vil ég óska landsmönnum öllum árs, friðar og gleðilegra jóla. Ennfremur óska ég ykkur öllum til hamingju með birtuna í lífi ykkar, hvaðan sem hún er runnin.
(Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 12. 2006)
(Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 12. 2006)
2 Ummæli:
Þann 7:12 e.h. , Nafnlaus sagði...
Ji hvað elsku Anna er orðin stór,,,og ekki er nú langt síðan ég sá hana síðast! og ótrúlega sæt alltaf :)
Adam prubbis alltaf flottastur líka,,,og hvenær kemur eiginlega nýtt blogg addis??
KKV
Solla sys
Þann 2:17 f.h. , Nafnlaus sagði...
Sendum þér og fjölskyldu þinni hugheilar jóla og nýárskveðju, þakka samveruna í vetur.
Kristján, Sigríður og dætur Sauðárkróki.
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim