Samstaða leikara
Kæru félagar.Hann er harður heimur peninganna og erfitt að standa andspænis hörðum og gráðugum peningaköllum. Rök þeirra gjarna eins og í vondu absurd leikriti, sem margir eru tilbúnir að leika í. Árið 1950 þegar þjóðleikhúsið opnaði voru laun leikara við stofnunina ákveðin í samræmi við laun lektora Háskóla Íslands, ef ég man rétt. Hvar erum við stödd í dag varðandi þann samanburð. Á svipuðum stað og leikskólakennarar. Báðar þessar stéttir með óviðunandi laun fyrir vinnu sína. Hingað til hafa félagsmenn FÍL ekki verið til í að standa saman og krefjast mannsæmandi launa fyrir krefjandi og erfitt starf. Það er því frábært að nú sé að rofa til og félagar í FÍL farnir að standa saman. Á ferli mínum hef ég oft hafnað tilboðum um leik í kvimyndum, sjónvarpi, auglýsingum og á leiksviði sem greiða átti lægra fyrir en samningar FÍL segja til um. Það voru samt alltaf einhverjir til í að taka hlutverkin. Ég vissi uppá hár hverjir undirbuðu lámarkssamninga FÍL en sagði ekki neitt. Það var engin samstaða og samningar FÍL ekki virtir. Til hvers erum við að með félag og samninganefndir sem vinna hörðum höndum að því að semja um lámarkslaun fyrir okkur, ef við getum svo ekki farið eftir þeim? Ég bið hvern og einn sem les þetta að svara fyrir sig.Boltinn er farinn að rúlla og stækkar óðum. Þá verður erfitt að stoppa hann og samstaðan styrkist. Nú er tækifæri til að sína mátt samstöðunnar og styrk FÍL félagsins okkar sem skiptir leikhúslistamenn miklu máli. Ég legg til að framvegis birti FÍL lista í hverjum mánuði þar sem fram kemur hverjir hafa undirboðið samninga FÍL þann mánuðinn.Þetta brýnir okkur og ég trúi ekki að neinn vilji láta birta nafnið sitt á svona lista.Kæru félagar með samstöðunni getum við barist fyrir mannsæmandi launum. Án samstöðu lækka þau bara.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim