Stutt frásögn úr nýrri bók.
Fjöruferðinni þennan morgun var lokið. Hann nam staðar við lækinn og leit yfir engin. Sláttumennirnir voru byrjaðir. Á Læk voru menn líka byrjaðir. Allsstaðar á öllum engjum voru menn með orf og ljá. Byrjaðir að vinna lífsbjörgina. Það iðar allt af lífi við að afla fanga til að halda lífi í búfénu veturinn. Til þess að það geti haldið lífi í mannfólkinu svo það geti fjölgað sér. Hún er undarleg þessi keðja. Mangi var á hlaðinu og byggði bæ. Bæ yfir fjölskylduna. Bæ fyrir framtíðina. Agga og Baldamamma voru í eldhúsinu. Agga kom út með Baldur litla í fanginu og heitt í bolla í hinni. Hún gekk til Manga og rétti honum bollann. Hann stoppaði augnablik, átti ekki von á þessu, að Agga kæmi út með heitt í bolla. Eitt augnablik mættust augu þeirra. Agga gat ekki betur séð en að það birti yfir andliti Manga. Þetta voru ekki tröllaaugu, nei þetta voru falleg augu. Allt í einu upp úr þurru eins og kornabörnum er lagið fór Baldur litli að gráta. Agga snéri sér við, en þá heyrði hún rödd sem hún hafði aldrei heyrt. Hún snéri sér að Manga aftur. Hann endurtók „Agga má ég“ og rétti út hendurnar. Hún áttaði sig ekki strax, um hvað hann var að biðja. „barnið“ sagði hann „má ég?“ Agga rétti honum litla líkamann sem hvarf í risavaxnar hendur Manga. Barnið leit á hann. Þeir horfðu hvor á annan. Baldur þagnaði og það færðist örlítið bros yfir andlit Manga. Hann settist niður með barnið, sem kraflaði eftir svörtu skegginu og hárinu og hjalaði en Mangi drakk heitt. Eftir þetta kom Agga alltaf út með Baldur og heitt, þegar aðrir voru farnir á engið.
Þetta er stuttur kafli úr nýrri bók. Hvernig finnst þér? Viltu fá að sjá meir úr þessari sögu?
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim