Af netinu
Þetta var skrifað um Þorgerði Katrínu á malefni.com og ef þetta er rétt ætti Þorgerður að hætta í stjórnmálum.
Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október s.l. var talsvert rætt um 50 milljarða sem Kaupþing hafði lánað lykilstarfsmönnum bankans til kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér. Eins og menn kannski muna var þeim einnig leyft að færa þessi lán á einkahlutafélög án sjálfskuldarábyrgðar sem gerir þeim tæknilega mögulegt að sleppa við greiðslu skuldanna með því að láta ehf. félögin fara í gjaldþrot.
Í Mbl. frá þessum tíma má lesa að þetta athæfi þyki á barmi þess löglega en auk þess hefur Kauphöllin áminnt Kaupþing sáluga fyrir að tilkynna ekki gjörninginn og fleiri yfirvöld s.s. skattstjóri munu hafa eitthvað við þetta að athuga. Mál þetta er allt hið sóðalegasta og lyktar eins og kæst skata af klíkuskap, siðleysi og græðgi.
Einn þeirra sem lenti í þessu kastljósi var Kristján Arason framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi sem jafnframt er eiginmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur ráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Félag hans Sjö hægri mun hafa átt tugi milljóna í hlutabréfum í bankanum og Þorgerður Katrín sagði við fjölmiðla að þau hjónin ættu þó alltént hús það sem þau byggju í en svo ætti eftir að “gjaldfella skuldirnar”.
Heimildarmaður sem ritari síðunnar telur traustan fullyrðir að djúpt í myrkviðum Kaupþings sé þegar búið að ákveða að afskrifa allar skuldir Sjö hægri en farið sé með þá ákvörðun eins og mannsmorð innan veggja bankans. Sé þetta rétt væri það pólitískur banabiti Þorgerðar Katrínar því vægast sagt er ólíklegt að þeir sitji við sama borð Jón og séra Jón þegar kemur að skuldaskilum af þessu tagi. Líklega verður því áfram sagt opinberlega að málið sé enn óútkljáð. Sjálfstæðismenn hlusta mjög grannt eftir sögum af þessu tagi því undir niðri kraumar óánægja þeirra sem gjarnan vildu sjá Bjarna Benediktsson taka við fánanum af Þorgerði.
Svo því sé til haga haldið þá er húsið sem Þorgerður Katrín og Kristján Arason eiga ennþá - eitt eigna ef marka má yfirlýsingar - við Tjarnarbraut 7 í Hafnarfirði. Það er byggt 1931 og er 220 fm. og virt á rúmar 37 milljónir.
Samkvæmt hinu illræmda tekjublaði Frjálsrar verslunar hafði Kristján Arason 19.1 milljónir í mánaðarlaun á árinu 2007 en Þorgerður Katrín eina milljón og 66 þúsund að auki.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim