Stefán Sturla Sigurjónsson

03 apríl 2008

13. kafli Sagan

Það rann kalt vatn milli skinns og hörunds Redíu Kvest þegar hún heyrði þetta nýstandi ýlfur eða væl, sem minnti hana á fæðinguna forðum. Hún var viss um að fyrir innan dyrnar væri eitthvað sem ekki átti heima í nornaskólanum. Nornir hafa alltaf verið trúar nornaeiðnum, allt þar til HÚN fæddist fyrir löngu, þetta undarlega barn. HÚN var sú eina sem hafði ögrað nornaeiðnum, farið svartar leiðir, eins og nornirnar kölluðu það, leiðir sem ekki mátti fara. Og HÚN kunni það. Redía mundi eftir hljóðunum, hún mundi eftir lyktinni og hún mundi eftir látunum í Arjafjöllum við fæðinguna. Fjöllin skulfu og það hrundu úr þeim heilu björgin sem ultu með látum niður hlíðarnar. Núna rifjaðist þetta allt upp fyrir henni. Gat verið að þetta væri að endurtaka sig? Hún hrökk upp frá hugsunum sínum þegar hún heyrði að ýlfrið kom ekki frá einni veru. Þær voru tvær eða jafnvel fleiri, það var engu líkara en að einhver ýlfraði ofan af lofti, af ganginum, úr veggjunum og innan úr herberginu. Redía hlustaði. Hjartað hamaðist í brjósti hennar, gat þetta verið? Ýlfrin töluðust við, þetta var tungumál sem hafði ólík hljóð, löng og stutt, skörp og sterk, mjúk og veik, með ólíkum áherslum en alltaf þetta óhugnanlega ýlfur. Nú vissi hún hvað þetta var, núna fyrst áttaði hún sig á hljóðunum. Hvernig stóð á því að hún hafði ekki uppgötvað þetta fyrr? Kannski vegna þess að HÚN var henni of náin. Núna fór hún líka að skilja það sem sagt var, það sem ýlfrið þýddi, því Redía Kvest kunni forynjumál. Hún hafði lært það úr Galdranornabókinni – KáciaMáqixxaOmná – fyrir löngu síðan. Forynjurnar sem bjuggu í neðanjarðarhellum og hvelfingum undir Arjafjöllum, þær höfðu ekki komið upp á yfirborðið í 874 sólár og nú var árið 660 ár Fenris. Redía rifjaði upp söguna. Konungur forynjanna var kallaður Fenris. Hann var sonur Okans, sem var fyrsti sonur nornarinnar Eddu. Hún er sögð hafa skrifað Galdranornabókinni – KáciaMáqixxaOmná –. Okan kunni að temja og ríða drekum, hann lærði líka mál forynjanna og átti barn með Angreu dóttur fyrsta konungsins í Arjafjöllum. Sagan segir að Fenris hafi verið lítill og loðinn með framstæðan skolt og stór uppmjó eyru, við fæðingu. Fótleggirnir verið sterklegir og hann hafi farið jafnhratt á tveimur fótum eins og úlfar hlaupa á fjórum fótum. Fyrst var hann óskaplega ljúfur og allir hændust að honum, nornir og forynjur, sem þá lifðu í sátt og samlindi. En eftir því sem hann eltist varð hann grimmari og grimmari. Þegar konungurinn dó át hann föður sinn Okan, sem átti að taka við konungsdómi Arjafjalla og gerðist konungur sjálfur. Þá sauð Edda seið sem lokaði leiðum forynjanna út úr Arjafjöllum. Þennan seið höfðu allar nornir lært að sjóða og við skólaslit nornaskólans var alltaf helt úr pottinum í útgönguleiðir forynjanna og þannig hafði þeim verið haldið í iðrum Arjafjalla allt til þessa tíma. Nú ýlfruðu forynjur í nornaskólanum.
„Úr myrkrinu koma
synir Fenris hins sterka
skuggar birtunnar
ætt Okans og Angreu.“
Heyrði Redía koma úr öllum áttum og hljóðin bergmáluðu færðust í aukana og nálguðust.
„Bræðum og brennum
bölvuðum nornum.
Valdið mun sigrar
á Fenris degi.“
Forynjurnar birtust úr öllum skúmaskotum, skuggar í myrkrinu, frá flöktandi kertaljósinu sem Redía hélt á. Í sömu andrá opnuðust dyrnar að herbergi 666 á Klaustursganginum, herbergi tvíburanna. Redía greip fyrir muninn og kæfði hljóðið sem ætlaði að ryðjast út úr munninum. Þær flissuðu og hlógu og réttu það ýlfrandi upp í áttina til Redíu Kvest.

1 Ummæli:

  • Þann 5:04 f.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

    Hello. This post is likeable, and your blog is very interesting, congratulations :-). I will add in my blogroll =). If possible gives a last there on my blog, it is about the Dieta, I hope you enjoy. The address is http://dieta-brasil.blogspot.com. A hug.

     

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim