Stefán Sturla Sigurjónsson

24 desember 2006

Hlaupa jól

Jólin haldin í Vasa með fjölskyldunni. Það gekk samt ekki átakalausta að komast til Finnlands frá Íslandi þann 20. desember. Fluginu frá Íslandi var frestað um tvo tíma, því flugi frá Ameríku seinkaði. Útskýringin var sú að fólkið frá Ameríku þurfti að ná heim fyrir jólin. Meðan beið hálffull vél og margir misstu af tengiflugi í Stokkhólmi. En ég vona að það fólk hafi náð heim fyrir jólin. Við Sandra Björg gerðum ráð fyrir að vera í þeim hópi, sem sagt að missa af tengifluginu. Sandra hljóp út úr flugvélinni þegar við lentum. Að vísu beið hún eftir að við komum að landgöngurananum. En gleymdi gjafapoka með jólasveini í sætisvasa flugvélarinnar. Ég fór því til baka og sótti sveininn. Á meðan komst Sandra að því að flugi til Vasa hafði seinkað um einn tíma. Við tókum á sprettinn því við þurftum að sækja töskurnar og tékka okkur inn aftur. Fengum forgang allstaðar og náðum í Vasavélina. Þegar inn í hana var komið uppgötvuðum við að jólasveinninn var ekki lengur með. Vafalaust dottið af kerrunni einhversstaðar á hlaupunum í flughöfninni á Arlanda. Sennilega var jólasveinninn sprengdur upp af einhverjum sérfræðingum eftir að hafa skoðað einkennilegan hvítan plastpoka með torkennilegum hlut. Ég viðurkenni samt ekki að hafa ætlað að skapa glundroða á Arlanda. En jólasveinar eru til alls vísir. Vona samt innilega að jólasveinninn skreyti arinhillu hjá einhverri góðhjartaðri manneskju sem bjargaði honum frá sprengióðum verði. Því íslenski jólasveinninn er enginn terroristi... lengur.
Þessi tími ársins er ævintýri, jólaævintýri.
Gleðileg jól.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim