Helgileikur á aðventunni
Við Sandra Björg fórum og sáum leiksýninguna "Jólapera, eða helgileikurinn um Jósef frá Nasaret". Sýnt er á efrihæð Grand rokk. Það er leikhóprinn Peðið sem flytur verkið. Leikhópurinn var stofnaður fyrir tveimur árum ef ég man rétt og er þetta þriðja sýning hans. Leikarar eru barrottur Grand rokk og er því með sanni hægt að segja að þetta sé hið fullkomna pöbbaleikhús. Verkið fjallar um fæðingu Jesúbarnsins eða öllu heldur sjálfan Jósef sem hefur engan tíma til að standa í ferðalögum um há bjargræðistímann. Næg verkefni heima, því eru þau Maja –eins og hún María Jesú móðir er kölluð í verkinu– sein fyrir til Betlehem og verða að hýrast í fjárhúsi. Nálgun höfundarins Jóns Benjamíns Einarssonar er einstaklega skemmtileg. "...að auki er konan komin að því að fæða barn sem hann á ekkert í. Þegar fæðingin er afstaðin hefst vægast sagt óvenjulegur gestagangur, svo Jósef þarf að taka á öllu því jafnaðargeði sem hann á til", segir höfundurinn í leikskrá. Jósef, frægasti kokkáll mannkynssögunnar er sem sagt sögumaðurinn. Verkið er einstaklega skemmtilegt, skreytt fagurlega tónlist og söngvum. Helgileikur sem enginn ætti að missa af. Til hamingju Peðsfólk.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim