Stefán Sturla Sigurjónsson

14 nóvember 2006

Norræna bókasafnavikan

Síðastliðinn föstudag var hringt í mig frá bókasafni í Korsnäs, sem er um 50 km. fyrir sunnan Vasa. Ég var beðinn um að koma að leika eða segja sögu í norrænu bókasafnavikunni, sem er núna. Þriðjudaginn 14. kæmu börn frá Korsnäs í heimsókn í safnið. Auðvita sagði ég já! Rétt nýbúinn að læra að segja nei, þá ég segi já við einhverju sem ég hef aldrei gert áður, að leika eða segja sögu á sænsku. Fljótlega ákvað ég að kynna hina makalausu íslensku jólasveinafjölskydu. Makalausu segi ég, því hún er í rauninni alveg einstök í veröldinni. Tröllamamma sem étur börn, hundlatur tröllapabbi sem lyftir ekki fingri heima hjá sér og grimmasti köttur landsins er gæludýr þeirra. Afkvæmi þessara hjúa síðan 13 hrekkjusvín og þjófar, sem verða að ljúfum góðum sveinum sem gefa í skóinn. Ég útbjó 25 mínútna sögustund með aðstoð PowerPoint og videos. Með aðstoð internetsins er allt hægt. Þvílíkt heimabókasafn og alfræðiupplýsingar. En hvað um það ég var sem sagt með í maganum alla helgina að þetta yrði eitthvert klúður hjá mér. Enda sat ég til klukkan hálf eitt s.l. nótt og raðaði saman efninu og bjó til PowerPoint skjalið sem ég notaði. Það var svo ekki fyrr en ég var að taka tölvuna úr bílnum fyrir framan bókasafnið í morgun að ég sá hvernig ég gæti byrjað þessa sögustund. Í hólfinu í hurðinni var 17. júní fáninn hans Adams. Þá kviknaði ljósið, fáninn var auðvita upphafið. Ég var sem sagt með þrjár uppákomur á þessari sögu í dag. Þarna voru fréttamenn frá útvarpi og blöðunum. Eitthvað sem ég áttu ekki von á. Enda hefði þá magaverkurinn orðið að einhverju blautara, hugsa ég. En þetta gekk vonum framar. Og nú þarf ég bara að laga svolítið til í textanum og þá er þetta bara ansi góð myndræn sögustund. Ég er að hugsa um að sækja um styrk frá finnsk-íslenska sjóðnum til að fara með þetta í skóla í vetur og kynna tröllin Grýlu og Leppalúða og syni þeirra fyrir finnskum börnum.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim