Þögnin er gleymd...
Þegar ég var að undirbúa uppsetningu mína á Græna landinu eftir Ólaf Hauk í Wasa teater, fann ég sterkt fyrir tónlistinni eða ljóðrænunni í textanum. Leikararnir sögðu að það væru svo létt að læra hann að textinn kom bara áður en maður vissi af. Þannig er með vel uppbyggðan ljóðrænan texta. Í handritinu er gert ráð fyrir að aðalpersónan Kári, noti mynvarpa þar sem hann skoðar gamlar myndir, frá því hann byggði hæstu húsin í Reykjavík. Þetta notaði ég ekki, fannst miklu meira spennandi að kalla þessar myndir fram með upplifun áhorfenda á hin fallega texta Ólafs Hauks. Eins var með hljóðmyndina eins og svo vinsælt er að kalla tónlist og hljóð í leikverkum í dag. Ég tel að tónlist sé ofnotuð í flestum uppsetningum. Allstaðar þar sem hugsanleg þögn gæti verið "of" löng, er sett áhrifshljóð, tónlist eða eitthvað annað hljóð. Ég held að þetta sé vegna áhrifa frá kvikmyndinni. Stundum á tónlist og jafnvel mikil tónlist og önnur áhrifshljóð rétt á sér í leiksýningum. Ég spurði mig marg oft hvort tónlist væri eitthvað sem yki á skilning áhorfenda á Græna landinu. Þá áttaði ég mig á því að áhrifshljóð sem notuð hafa verið bæði í kvikmyndum og leiksýningum eru eins og eiturlyf... fólk þarf alltaf miklu meiri og sterkari og sterkari skammta af þeim. Þögnin er gleymd... sem þíðir að áhrifin af þögninni er gríðarlega sterk. Ég tel að í dag sé þögnin lang áhrifamesta hljóðið sem við getum framkallað. En það er erfitt að not þögnina, vegna þess að fólki líður oft illa í þögninni. Áhorfendur framkalla –fullkomlega ómeðvitað– hljóð til að rjúfa þögnina... hósta, stynja, hreifa sig... bara eitthvað. Þess vegna er þögnin frábær til að vekja sterkar tilfinningar. Ég trúði á þessa hugmynd og lagði hana upp fyrir samstarfsfólk mitt. Allir voru til í að prufa þessa leið, annars er ómögulegt að gera leiksýningu án tónlista eða annarar hljóðtækni, einungis að nota röddina, textann... leikararnir verða að trúa á aðferðina. Það gerðu þeir og útkoman er ótrúleg... miklu sterkari en ég gat ímyndað mér.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim