Stefán Sturla Sigurjónsson

10 október 2008

Erum á hausnum en stöndum vel

Í allri þessari ólgu og stórsjó er maður hættur að skilja íslensk hugtök. Hvað þíðir t.d. þjóðargjaldþrot? Ég hélt að ag vissi hvað fælist í gjaldþroti. Bú eða fyrirtæki er gert upp. Sem þíðir að allar eigur eru seldar oftast hæstbjóðanda. Þíðir þá þjóðargjaldþrot að landið verði gert upp og hæstbjóðendur eignist... hvað? Rússar kaupi Keflavíkurflugvöll og Neskaupsstað, Færeyingar Langanes, Þýskaland Skagafjörð, Finnar Háskóla Íslands o.s.fr. Allt í einu skilur maður ekki hvað er að gerast og það sem verra er ekki tungumálið heldur. Ráðherrar koma með allskonar yfirlýsingar... daglega... og maður er engu nær. Það er búið að þjóðnýta þrjá banka, þeir fóru á hausinn. Hvað með Seðlabankann? Ég skil ekki betur en að hann sé á hausnum, eigi ekki fyrir skuldum. Af hverju fá stjórnendur hans að stjórna og koma með yfirlýsingar þrátt fyrir að flestir séu sammála um vanhæfni og ótrúleg mistök í starfi? (eins og einn stjórnamaður bankans hefur viðurkennt og sagt af sér). Eins og Davíð hinn mikli sagði... Við skuldum langt umfram þjóðartekjur, en stöndum vel. Nei það er ómögulegt að skilja þetta. Og af hverju má ekki draga sökudólga fram í dagsljósið og ákæra þá, eða rannsaka starfsemi og starfsháttu þeirra? Frysta eignir auðmanna. Sem virðast þegar málin eru að skírast ekki vera auðmenn heldur auðvirðilegir menn að minnstakosti sumir. Varla eru ríkissaksóknari og rannsóknarlögreglan að drukkna í björgunarleiðangri Geirs harða, sem virðist einkennast mest af mistökum og misskilningi, ef marka má fréttir.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim