Karnival minninganna
Frábær dagur á enda. Laufskálréttir... Þetta er ótrúleg samkoma – karneval. "Um sexhundruð hross runnu að réttinni og tvöhundruð reiðmenn fylgdu stóðinu. Þetta var stórkostleg sjó", sagði höfðinginn Reynir Aðalsteinsson 63 ára tamningameistari. Ég hitti hann við réttarvegginn. Þetta var í fyrsta sinn sem hann var í Laufskálaréttum. Alltaf í útlöndum með námskeið á þessum tíma. Já Laufskálaréttir eru einn stærsti viðburður í íslenskri hestamennsku. "Mjög auðvelt að gera þetta að risa dæmi", eins og einhver hvíslaði í eyru mín í dag. Hvað þíðir risa dæmi? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að þetta á að vera svona. Hæfilega sveitalegt með nógu einföldu sniði og alls ekki að gera þetta að einhverju öðru en það er, Laufskálaréttum þar sem bændur sækja hross sín úr fjallabeit sumarsins. En reiðhallarsýningin og ballið - réttarballið - er algerlega einstakt. Þar ægir saman öllum kynslóðum fólks úr öllum stéttum frá öllum landshornum. Einhver hundruð manns kanski þúsund... koma saman og skemmta sér. Unga kynslóðin með gemsann límdan við eyrað dansandi og kelandi en líka að tala við... ég veit ekki hvern... í gemsann. Í hávaða sem ég get ekki skilið hvernig hægt sé að heyra hljóð úr gemsanum... kanski skiptir það ekki höfuð máli bara að hringja og láta vita... Eldra fólkið talar og talar uppá gamla mátann... eða hálf öskrar milli stóla já eða á dansgólfinu. Þeir mikið fullu, flestir komnir yfir miðja aldur, eru bornir út í hrömmunum á Bigga í Valagerði sem enginn vill lenda í útistöðum við. Þessi gæða drengur vill öllum vel og leysir starf sitt eins og herforingi, af ákveðni en með virðingu fyrir einstaklingnum. Allir gömlu félagarnir eru á staðnum og minningar eru rifjaðar upp, bæði í huganum og með öðrum. Þetta er indislegt, þetta er sagan, þetta er lífið, þetta er að verða bráðum fimmtíu ára.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim