Stefán Sturla Sigurjónsson

07 ágúst 2008

MADAME BUTTERFLY

Í Finnlandi er mikil hefð fyrir sumarleikhúsi, hvort tveggja atvinnu- og áhugafólks. Leikfélög og leikhópar vítt og breitt um landið fá til liðs við sig atvinnulistafólk og sýna í náttúrulegu umhverfi á utanhússleiksviðum. Verkin eru af ýmsum toga, klassíkerar, barnaleikrit, sögulegleikrit, söngleikir og óperur. Sumstaðar er boðið uppá áhorfendasvæði sem snúast. Þar er áhorfandinn eins nálægt því að vera í kvikmyndaleikhúsi og hægt er að komast. Þessi sumarleikhús bjóða oft uppá ótrúlega möguleika og útfærslur. Sumstaðar hefðbundin útileiksvið og annarstaðar leikið inn á byggðasöfnum. Í einu slíku, “Postbackens teater” í suður Finnlandi sá ég ákaflega djarfa og skemmtilega uppsetningu atvinnufólks á óperunni “Madam Butterfly”.
Danski leikstjórinn Anders Ahnfelt-Rønne hefur á síðustu árum þróað uppfærslu á óperum á einfaldann og ódýrann hátt. Óperuuppsetningar sem færa tónlistina allaleið að hjarta áhorfandans. Hann vill hafa sviðin sem minnst og sem næst áhorfendum. Eina hljóðfærið er flygill og leikmyndin nánast engin. Þetta form hefur slegið rækilega í gegn í heimalandi danans og nú var boðið uppá þetta í fyrsta sinn í Finnlandi. Þessi nálægð og einfaldleiki er að sjálfsögði ákaflega brothætt form en nær alla leið að innsta kjarna listarinnar ef vel tekst til.
Í þessari uppsetningu var leikið á leiksvið sem var 5 x 5 metrar, flygillinn á palli til hliðar og áhorfendur sátu hringinn í kringum listafólkið. Sungið var á sænsku, en það að bjóða uppá óperu á móðurmáli áhorfandans býður uppá en meiri dramatíska nálgun og skilning á verkinu. Anders Ahnfelt-Rønne vill með þessu færa óperuna til þeirra sem á okkar dögum eru ekki vanir óperuforminu og gera óperuna þannig öllum aðgengilega.
Að þessu sinni tel ég mig hafa upplifað eitthvað alveg nýtt. Raddir söngvaranna óma enn í eyrum mér þar sem sagan og frásagnarformið náðu nýjum hæðum. Leikstjórinn náði örugglega því allra besta og fínasta úr hverjum listamanni. Lokasena verksins þar sem m.a. Madam Butterfly tekur eigið líf og móðirin tjáir tilfinningar sínar í formhreinni hreifilist er bara á valdi bestu listamanna.
Eftir óperuna hitti ég listafólkið. Þau sögðust öll hafi verið spennt fyrir forminu en aldrei séð svona uppsetningu. Auðvitað sögðust þau hafa verið hrædd við þetta til að byrja með en með styrkri stjórn leikstjórans hafi þetta breyst í spennandi ferðalag. Sari Hourula sem söng aðalhlutverkið, Madam Butterfly, sagðist í upphafi ekki hafa getað ímyndað sér hversu gefandi og skemmtilegt þetta væri. Þetta hafi gefið henni alveg nýja sýn á óperuna. Anders Ahnfelt-Rønne er ekki að snúa útúr verkinu, ekki að reyna að segja aðra sögu, ekki að “nútímavæða” verkið heldur að gera það enn aðgengilegra og jafnvel áhrifaríkara en áður hefur verið gert. Það tel ég að hafi tekist í þessari uppfærslu.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim