Leiklist í Tampere
Í dag þann 5. ágúst hefst leiklistahátíðin í Tampere. Þetta er í fertugasta sinn sem hátíðin er haldin. Ein af mínum fyrstu kynnum af Finnlandi var einmitt þegar Þybilja fór á þessa hátíð með "Dal hinna blindu" sem var leikgerð Þórs Tuliniusar eftir sögu H.G. Wales. Þetta var mikið og skemmtilegt ævintýri. Seinna stóð til að hópur sem var að vinna verk uppúr Bandamannasögu undir stjórn Sveins Einarssonar í samvinnu við Eggleikhúsið frumsýndi verkið á þessari hátíð. Það varð hins vegar ekkert úr því. Og hætti Egg-leikhúsið við uppsetninguna. Seinna hóaði Sveinn í hóp leikara og tónlistarmanninn Guðna Franzson til að vinna verkið. Það var sýnt í Norræna húsinu og síðan í Borgarleikhúsinu í Vasa. Afleiðingar ferðar Bandamanna til Vasa vita þeir sem þekkja okkur Petru. Á morgun fer ég til Tampere –eða Tammerfors eins og borgin heitir uppá sænsku– til að sjá tvær sýningar og hitta Svein kallinn og Borgar Garðarsson... já og vonandi fleiri íslendinga sem eru komnir til að sjá rjómann í finnskri og evrópskri leiklist. Til hliðar við Hátíðina verðu haldið norræna leiklistarþingið. Ég hef hlerað að þar eigi að heiðra Svein Einarsson fyrir störf í þágu leiklistarinnar. Ég ætla að sjá tvær sýningar á morgun, "24 timmar Berlin" frá sænska þjóðleikhúsinu og "Det röda strecket" frá borgarleikhúsinu í Vilmanstrand í leikstjórn Juha Luukkonen en hann á tvær sýningar á hátíðinni að þessu sinni. Hin sýningin kemur frá borgarleikhúsinu í Vasa. Spennandi leikstjóri sem hefur ótrúlegt vald á að vinna með humor og drama, þannig að áhorfendur ýmist skellihlæja eða gráta á sama andartakinu. Það verður spennandi að sjá þessar sýningar. Svo er "Menningarnóttin" þann 7. ágúst í Vasa.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim