Laufskálaréttir
Þá er þessari síðustu réttarhelgi lokið, Laufskálaréttarhelginni. Veðrið var eins og best verður á kosið og fjöldi fólks við réttirnar ótrúlegur. Skemmtileg stemming og vinir og kunningjar allstaðar af landinu. Já sannkallað karnival.
Á morgun fer ég til Reykjavíkur að taka á móti Petru, Adam og Önnu sem eru að koma frá Finnlandi. Það verður náttúrulega bara loksins, loksins, loksins.
Læt fylgja hér fyrir neðan grein Birgis Haraldssonar bónda um Laufskálarétt.
Frá ómunatíð hafa bændur í Hóla- og Viðvíkurhreppum hinum fornu rekið búfé sitt á Kolbeinsdalsafrétt. Elstu heimildir telja að búfé af þessu svæði hafi verið réttað í rétt sem stóð í Grófinni á milli dalanna (Kolbeinsdals og Hjaltadals) skammt vestan við núverandi afréttarhlið. Mikil dulúð hvílir yfir þessari rétt og sögur af henni með þjóðsagnablæ.
Árið 1818 er rétt byggð á Heljareyrum undir Heljarfjalli í Kolbeinsdal; var hún öll hlaðin úr grjóti með stórum almenningi og 15 dilkum. Upp úr 1920 fóru menn að ræða það af fullri alvöru að flytja réttina niður í byggð og smala til hennar af öllu svæðinu. Beindust augu manna fljótt að Laufskálaholti í landi Brekkukots (nú Laufskálar) en þrátt fyrir margra ára þóf náðist ekki að byggja hana þar. Sumarið 1929 var byggð timburrétt á Brekkukotseyrum (nokkru sunnar en núverandi rétt stendur) með 22 dilkum. Þessi rétt reyndist illa og var að verða ónothæf um 1950.
Aftur beindust augu manna að Laufskálaholtinu. Eftir fjögurra ára baráttu með ótal fundum, sendinefndum og viðtölum virtist allt komið í strand, en þá bauð Páll Jónsson, bóndi í Brekkukoti, land undir réttina og nátthaga á Laufskálaholti, endurgjaldslaust.
Bygging núverandi réttar hófst 2. júní 1954, en grunnur var jafnaður haustið áður. Byggingarnefnd skipuðu Sigurmon Hartmannsson, Kolkuósi, sem var formaður, Friðbjörn Traustason, Hólum og Pétur Runólfsson, Efra-Ási. Teikningu gerði Teiknistofa landbúnaðarins. Réttin er öll steinsteypt og stendur á stólpum en annars holt undir veggi, almenningur er láréttur en dilkarnir 23 halla lítilega frá miðju.
Áætlaður kostnaður var 150.þúsund en sú áætlun stóðst ekki og var endanlegur kostnaður kr. 201.989,55.
Heimamenn sáu um grunnin undir verkstjórn Hermanns Sveinssonar á Miklahóli . Svitnuðu margir við það verk því handgrafa þurfti fyrir öllum stöplum svo og almenningi og voru verkfærin skóflur, hakar og járnkarlar. Stöplarnir voru steyptir í mótum sem smíðuð voru úr gömlu réttinni, öll steypa var handhrærð á flekum og vatn sótt í mjólkurbrúsum. Um veggjabyggingu sá Kaupfélag Skagfirðinga og var yfirsmiður Guðmundur Sigurðsson.
Margir spáðu illa fyrir þessu verki, töldu að það yrði aldrei búið og svo myndi réttin hrynja. En með þrotlausri vinnu tókst að ljúka verkinu á réttum tíma og var réttin vígð þann 20 september 1954 að viðstöddu miklu fjölmenni.
Einn góðviðrisdag, á meðan á verkinu stóð, kallaði Friðbjörn á Hólum okkur saman, sem þarna vorum að störfum, og sagði: “Piltar. Þessi rétt á að heita Laufskálarétt, ekki Laufskálaholtsrétt. Þið heyrið það.”
Síðan hefur Laufskálarétt staðið undir nafni í 50 ár, sér og sínum til sóma. Mjög hægur stígandi var í gestakomu í réttina framan af, en smátt og smátt laðaði stóðréttin að sér fleira fólk og um tíma var hrossaverslun allfjörleg þótt dregið hafi úr því á seinni tíð. Gestir sem nú koma í stóðréttina árlega skipta þúsundum , enda er Laufskálarétt af mörgum talin drottning stóðréttanna.
Birgir Haraldsson, bóndi á Bakka í Viðvíkursveit (heimild: www.horse.is)
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim