Stefán Sturla Sigurjónsson

26 desember 2009

Jólahald í Sundom

Jólin voru indisleg hjá okkur í Sundom. Foreldrar Petru, bróðir hennar, Suvi kona hans og mamma hennar voru hjá okkur á aðfangadag. Sem sagt stórfjölskildan öll saman í Sundom. Aldrei hefur verið annar eins fjöldi gjafa í kringum jólatréð. Við þökkum ykkur öllum sem sendu gjafir frá Íslandi til okkar. Ekki ætla ég að fara að telja upp hvað við fengum en... ég held að Adam hafi verið óskaplega ánægður með nýju skíðin sem hann fékk frá Önnu og hún flettir og flettir í gegnum hestabókina sem hún fékk frá Adam. Ég fékk æðislega reiðskó frá Petru og bækurnar sem hún fékk frá krökkunum hugsa ég að hún njóti hvað best.
Maturinn var æði... þó ég segi sjálfur frá. Fiskiborð í forrétt, lútfiskur, síld, reyktur lax og marineraður fiskur, sósur og mmmm gott. Adam sat reyndar hjá í forréttinum. Aðalréttir, jólareykt skinka, lambahryggur, reyktur kalkúnn og salat, sósur, og allskonar meðlæti. Eftirrétturinn var blandað ostaborð... Öllu var svo skolað niður með gosi af ólíkum tegundum og rauðvíni.
Á jóladag fór ég svo í langan reiðtúr klukkan fimm. Þá var kominn svarta myrkur. Það var heiðskírt og tunglskinið lýsti upp skógarveginn sem ég reið eftir. Þeir Herkúles og Sikill voru spertir og þetta var æðislegur tími sem við áttum saman. Ég hafði ábreiðu á þeim um nóttina því það var kalt, um -18° og þá er kalt í hesthúsinu. Erum nú áleiðinni til Molpe, fer ekki á hestbak í dag því það er of kalt. Á morgun, 27. des. byrjar svo lokatörnin fyrir frumsýningu á áramótarevyunni sem ég er að setja upp hér í Sunom og Adam Thor að leika í. Frumsýning er 30. desember. Fyrsta frumsýningin hans Adams.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim