Stefán Sturla Sigurjónsson

11 júní 2009

Mömmu dagurinn

Hún mamma mín varð 70 ára 10. júní. Hún mamma mín var auðvitað akkerið, kannski ekki alltaf til staðar en akkerið, þegar ég var yngri en ég er nú. Minningarnar eru margar og flestar bjartar. Hún hefur alltaf reynt að gera öllum til geðs. Ég veit að hún var mikil pabba stelpa, kannski vegna þess að hún kynntist honum ekki fyrr en eftir stríð, þegar hann kom heim frá Danmörku þar sem hann stundaði nám við landbúnaðarháskóla. Þá var mamma sjö ára. Systkyni hennar, fimm talsins, eru því talsvert yngri en hún, Anna yngst, jafn gömul mér, unglamb. Mamma passaði og hjálpaði til á heimilinu... og þannig hefur það alltaf verið hjá mömmu. Hún reynir allaf að vera til staðar, hún vill alltaf hjálpa, gera öðrum til geðs. Sjálf hefur hún sjaldnast verið í forgangi. Jólin hennar mömmu eru sérlega eftirminnileg. Þá gerðist undrið nóttina fyrir aðfangadag. Síðan var stofan lokuð og aðgangur bannaður til klukkan sex á aðfangadag, þá opnaðist dýrðin. Mamma búin að standa yfir pottum og pönnum allan daginn að töfra fram jólamatinn, lambahrygg og allskyns gúmmolaði með. Borðið hlaðið góðgæti, fallega skreytt, kerti og hátíðarstund yfir öllu. Guttarnir þrír kallaðir að borðinu, Gísli, Eiríkur og Helgi... hehehe... Stebbi, Finnur og Krissi. Þeir snarstoppa við eldhúsborðið og líta yfir herlegheitin, svo gellur í einum, "...en mamma engin súlmjólk?" Seinna, já þó nokkrum árum og talsverðum þroska seinna. Aðfangadagsmorgun, stofan full skreytt en nú bjuggum við í opinni íbúð sem ekki var hægt að loka stofuna af. Mamma búin að vaka langt frameftir. Allt fullskreytt og pakkarnir á sínum stað undir trénu, mjög ögrandi, afskaplega spennandi. Allir í halarófu inn í svefnherbergi til mömmu. Klukkan bara átta um morguninn. "Mamma, mamma mín... meigum við opna einn pakka?" Mamma stein sofandi en mummlar eitthvað í svefninum. "Ha mamma mín meigum við það?" Hún mummlar eitthvað sem við þíðum sem "Já". Stökkvum fram og opnum hver sinn pakka. Síðan aftur og einu sinni enn, það var stór bakki fyllur af sælgæti frá Ólu. Svo var farið út að leika með jólagjafirnar. Um tólf leitið inn og mamma vöknuð... ekki glöð. Um kvöldið var bakkanum undan sælgætinu pakkað inn... bakkinn auðvitað tómur... og gefinn mömmu í jólagjöf. Þá var allt gleymt og hryggurinn eins og mamma gerir hann bestann, mmmm ég fæ vatn í munninn. Takk elsku mamma, takk fyrir að vera þú, takk fyrir allt og hjartanlega til hamingju með stóra daginn.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim