Minning um Jóa vakra
Jói vakri var hestakall. Hann fékk alla hesta til að skeiða og skeiða hratt. Þeir lágu hjá Jóa. Hann hafði einstakt lag á hestum. Taumhaldið mjúkt, ásetan djúp og næmni fyrir geðslagi hestsins einstök. Á vorin þegar hryssurnar voru að kasta sat hann á þúfu og fylgdist með folöldunum. Hann sagði að fyrstu sporin mörkuðu framtíðina. Á þúfunni sá hann geðslagið, viljann og styrkinn þegar ungviðið skoðaði heiminn og leitaði að spena. Það brást sjaldan augað sem Jói hafði fyrir hestinum. Því erfiðari sem hestarnir voru þeim mun meira spennandi fannst Jóa að takast á við þá. Með næmni sinni, þolinmæði og lagni gagnvart þeim tókst honum að vinna traust þeirra og fá hestinn til að vinna með knapanum. Kallinn var keppnismaður mikill. Stefndi alltaf á toppinn. Þannig var það í hrossaræktuninni á Miðsitju, þannig var það á vellinum. Þannig tókst hann á við erfiðan sjúkdóm. Hann ætlaði að sigra hann, hann ætlaði aftur á hestbak. Nú hefur þessi mikli hestamaður kvatt okkar jarðneska líf. Kanski er hann kominn á hestbak í óravíddum tilverunnar. Kannski hann ríði nú Kröflu sinni eða Mjölni. Kannski á fljúgandi skeiði.
1 Ummæli:
Þann 3:36 e.h. , Nafnlaus sagði...
Innilegar samúðarkveðjur til þín og þinnar fjölskyldu. Minningin um góðan mann lifir.
Kveðja Lulla
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim