Stefán Sturla Sigurjónsson

04 janúar 2009

Hann afi litli á afmæli.

Hann pabbi minn varð 77 ára í gær 3. janúar. KALLINN eins og ég hef lengi kallað hann, að minnstakosti frá því að við Valdi frændi slógums við hann sem pollar á Uppsölum í Miðfirði. Það var oft tekist á við kallinn og hann var óþreytandi að slást við okkur pollanna. Þegar við urðum eldri og sterkari fannst okkur undarlegt hvað hann varð latur við að slást við okkur og vildi þá frekar lána okkur unglingunum bílinn til að keyra um grundir og tún óðalsins hjá Óla frænda.
Við bræður höfum átt margar indislegar stundir með kallinum. Margs er að minnast, annað gleymist, eins og gengur. Eitt sinn fórum við með honum norður í Miðfjörð um páska og lentum í páskaóveðri. Vorum 17 klukkutíma að fara yfir Holtavörðuheiðina ásamt þeirri löngu keðju bíla sem voru á ferðinni. Lítinn mat höfðum við meðferðis annað en páskaegginn sem við áttum að snæða á páskadag og einnig þau sem átti að gefa krökkunum á Uppsölum og þau voru öll etin. Og þótti örugglega gott að fá svo vel útílátinn "mat". Stórhríðin var svo rosaleg að bílana fenti í kafa á stuttum tíma. Ég man að það kom maður og bað pabba að drepa á vélinni svo ekki pústaði inn í bílinn. En það hvarlaði ekki að kallinum, í staðinn fór hann reglulega út og skóf frá pústurörinu en hélt bílnum gangandi og heitum. Þegar líða tók á nóttina og það fór að minka á bensíntanknum drap kallinn annað slagið á bílnum. Við guttarnir skriðum þá í svefnpokana sem voru með, svo ekki væsti um okkur. Þessa óveðurspáskahrinu á Holtavörðuheiðinni í kringum 1970 voru margir bílar skildir eftir. En ekki Pegottinn hans pabba –eins og við kölluðum hann– . Ég held að það hafi aldrei hvarlað að kallinum að þiggja boðið að skilja bílinn eftir og fá far með rútunni sem fór á undan okkur. Nei hann skildi koma okkur og bílnum yfir. Og það gerði hann. Þannig hefur lífið hans pabba verið. Hann var fyrsti fastráðni blaðamaður hjá dagblaði sem sá alfarið um hestafréttir. Hann var fyrsti ritstjóri Eiðfaxa, fréttablaðs hestamann. Hann var fyrsti formaður gæðingadómarfélags hestamanna. Hann gaf hestamannafélaginu Stormi á Vestförðum lógóið og fyrsta fána félagsins. Hann starfaði lengst allra sem ritstjóri Vikingsins, blaðs sjómanna og farmanna. Allt frá því að kvótakerfið var sett hefur hann gagrýnt það harðlega vegna ranglætis þess og Hafranasóknarstofnun fyrir óvísindalegar aðferðir við ákvörðun um stofnstærð fiskistofna. Ekki það að hann vilji meina að hann viti betur, heldur hitt að rök stofnunarinnar gátu ekki staðist, að hans mati. Sem reyndar margoft hefur komið á daginn. Hver man ekki eftir að Hafró þurfti að viðurkenna að reiknilíkan sem unnið var eftir var rangt og Hafró leiðrétti stofnstærðarútreikninga í kjölfarið –bara lítið dæmi–.
Þeir sem þekkja kallinn frá fyrri tíð skilja varla á milli hans og hestanna Ljúflings og Dýrlings. Tveir gæðingar sem hann fékk á Kirkjubæ. Afburðagæðingar sem hann tamdi og þjálfaði. Pabbi kenndi mér að virða hestinn og skilja. Hann kom mér í hendur þeirra sem gátu kennt mér meira. Hann studdi mig til náms á Hvanneyri, ekki fjárhagslega heldur með föðurlegri hvattningu. Í sumar kom kallinn til okkar Petru og var hjá okkur í sex vikur. Síðan fórum við feðgar saman í ferðalag frá Vasa í Finnlandi til Reykjavíkur. Indislegur tími, indislegt ferðalag. Það sem toppaði þetta allt var ferðin í Hvallátur með Streina bróður og Sollu í sumar.

Ég er þakklátur þér pabbi minn fyrir allt sem þú ert og allt sem þú hefur kennt mér og gefið. Hlakka til að fá þig og Dóru í heimsókn um páskana.

Kæri pabbi til hamingju með afmælið.

2 Ummæli:

  • Þann 12:15 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

    Sæll frændi
    Valdi polli hér.
    valdi@fimir.is

     
  • Þann 9:44 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

    Gleðilegt ár frændi.
    Stefán

     

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim