Stefán Sturla Sigurjónsson

10 maí 2009

Til hamingju Finnur minn með daginn!

Hann Finnur bróðir minn á afmæli í dag. Ég held að við höfum alltaf verið samrímdir bræður, sérstaklega þegar við vorum yngri. Og margt var brallað. Hann var strax mikill keppnismaður, mjög mikill. Allt sem hann tók sér fyrir hendur varð og verður að vera af fullum þunga. Hann byrjaði fljótt að verða útsjónarsamur með vinnu til að afla sér peninga. Eitt sumar var hann hjólasendill fyrir Festi, lítið heildsölufyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur. Þá áttum við heima í Breiðholtinu og hann Finnur, hjólaði í vinnuna og um allan bæinn til að snúast fyrir Festi. Reyndar segja mér sögur að hann hafi undir haustið verið orðinn alræmdur í umferðinni, sérstaklega þegar hann brunaði niður Kalppastíg og inná Laugarveg, þar átti hann réttinn, að minnsta kosti jafn mikinn rétt og leigubílstjórar sem komu eftir Laugarveginum. Hann var samt ekki alltaf svona lunkinn á hjóli. Við áttum heima í Kópavoginum, rétt fyrir ofan litlu bryggjuna út á Kársnesi, þegar hann lærði að hjóla. Í þá daga var svolítil brekka og vegur frá sjoppunni beint niður og inná bryggjuna. Á vorin og sumrin var þarna leiksvæði, þar sem stórir og smáir söfnuðust saman. Þetta var líka kjörinn staður til að læra að hjóla. Ná jafnvæginu niður brekkuna og svo inná bryggjuna og hún var það löng að fæstir náðu að hjóla langt inná hana til að byrja með. Það myndaðist því oft svolítil keppni um hver gæti hjóla lengst inná bryggjuna. Finnur hjólaði náttúrulega meira og hraðar en aðrir og á fullriferð inná bryggjuna eftir henni allri, framaf henni og steyptist í sjóinn og hjólið og hann á bólakaf... afhverju hann gerði þetta? Hann varð að hjóla lengst, en var ekki komin svo langt í listinni, að læra að bremsa, eða hægja á sér (þannig hefur það reyndar oft verið með Finn). Til allra lukku voru stórir strákar á bryggjusporðinum sem veiddu hetjuna upp úr ísköldu Atlandshafinu og hjólið á eftir. Hann var borinn heim og fékk örugglega heitt kakó hjá mömmu. Ekki man ég hvort þetta var á afmælisdeginum hans, en hjólið fékk hann líklega þegar hann átti sjö ára afmælið.

Kæri vinur minn það er oft skrítið að komast ekki í föstudagsmatinn með þér eins og við reyndum að taka alltaf saman meðan ég bjó á Íslandi. Kæri bróðir þú átt sérstakt svæði í hjarta mínu. Hafðu það alltaf sem best.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim